Netfréttamiðill ábyrgur vegna meiðandi ummæla lesenda í athugasemdakerfi – Nýr dómur MDE

Samkvæmt nýjum dómi Mannréttindadómtóls Evrópu (MDE) samrýmist það tjáningarfrelsisákvæði 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) að netfréttamiðill sé dæmdur ábyrgur fyrir meiðandi ummælum lesenda í athugasemdakerfi netfréttamiðilsins.

Þann 10. október sl. felldi Mannréttindadómstóll Evrópu (sjö dómara deild) dóm í máli nr. 64569/09, Delfi AS gegn Eistlandi. Málið varðaði ábyrgð eistnesks netfréttamiðils, Delfi AS, á meiðandi ummælum í athugasemdum lesenda í athugasemdakerfi undir frétt á heimasíðu netfréttamiðilsins. Netfréttamiðillinn hafði kvartað til dómstólsins á grundvelli þess að það bryti gegn tjáningarfrelsi hans að sæta ábyrgð á slíkum athugasemdum. Dómstóllinn taldi að niðurstaða eistneskra dómstóla um ábyrgð netfréttamiðilsins og sú takmörkun á tjáningarfrelsi hans sem í því fælist væri réttmæt og fullnægði áskilnaði um meðalhóf. Dómstóllinn byggði einkum á því að ummælin hefðu verið afar meiðandi, að netfréttamiðillinn hefði vanrækt að koma í veg fyrir að þau yrðu opinber, hagnast á þeim en leyft höfundum að halda nafnleysi og að sektin sem eistneskir dómstólar dæmdu hefði ekki verið úr hófi.

Atvik málsins voru í stuttu máli þessi:

Delfi AS er eistneskt hlutafélag sem á eina af stærstu fréttasíðum í Eistlandi. Í janúar 2006 birti félagið á heimasíðu sinni frétt um skipafélag sem rekur ferjusiglingar. Fréttin varðaði ákvörðun skipafélagsins um að breyta leiðum ferja sinna til tiltekinna eyja. Ákvörðunin mætti gagnrýni vegna atriða sem ekki þarf að rekja sérstaklega. Margir lesendur fréttarinnar skrifuðu undir fréttina mjög meiðandi eða hótandi athugasemdir um skipafélagið og eiganda þess. Eigandi skipafélagsins höfðaði mál gegn Delfi AS í apríl 2006 og vann málið. Í júní 2008 komst eistneskur dómstóll að því að ummælin hefðu verið meiðandi og að Delfi AS bæri ábyrgð á þeim. Delfi AS var dæmt til að greiða eiganda skipafélagsins bætur sem námu að jafngildi um 320 evrum. Dómurinn var efnislega staðfestur á æðri dómsstigum Eistlands.

MDE byggði niðurstöðu sína í málinu nánar tiltekið sérstaklega á eftirfarandi fjórum forsendum:

Í fyrsta lagi horfði dómstóllinn til samhengis ummælanna. Ummælin hefðu verið móðgandi, falið í sér hótanir og verið meiðandi. Vegna eðlis fréttarinnar sem þau birtust við hefði Delfi AS mátt búast við því að meiðandi ummæli myndu koma fram og hefði því borið að sýna sérstaka varúð til að komast hjá því að þurfa að bera ábyrgð á ærumeiðingum gagnvart einstaklingum.

Í öðru lagi horfði dómstóllinn til þeirra ráðstafana sem Delfi AS gerði til að hindra framsetningu meiðandi ummæla. Á netsíðunni sem fréttin birtist á kom fram að höfundar athugasemda væru ábyrgir fyrir innihaldi þeirra og að hótanir eða móðgandi ummæli væru ekki leyfileg. Netsíðan eyddi jafnframt sjálfkrafa út athugasemdum sem innihéldu tiltekin gróf orð og notendur gátu tilkynnt vefstjórn síðunnar um meiðandi ummæli með því að smella á tiltekinn hnapp, sem síðan gat leitt til þess að ummæli væru fjarlægð. Hins vegar hefðu þessar ráðstafanir ekki náð að koma í veg fyrir að mikill fjöldi meiðandi ummæla kom samt sem áður fram og þau hefðu ekki verið fjarlægð nógu fljótt með sjálfkrafa síuninni eða tilkynningarferlinu.

Í þriðja lagi skoðaði dómstóllinn hvort raunverulegir höfundar athugasemdanna hefðu getað verið látnir bera ábyrgð á þeim. Eigandi skipafélagsins hefði fræðilega getað reynt að höfða mál gegn einstökum höfundum hinna meiðandi athugasemda fremur en að beina slíku máli að Delfi AS. Hins vegar hefði verið mjög erfitt að staðreyna hverjir einstakir höfundar væru þar sem lesendur gátu skrifað athugasemdir án þess að skrá nöfn sín. Þar af leiðandi voru margar athugasemdanna nafnlausar. Að láta Delfi AS sæta ábyrgð fyrir athugasemdirnar var af þessum sökum hagfellt en líka sanngjarnt, þar sem félagið hafði viðskiptalega hagsmuni af athugasemdunum.

Loks tók MDE afstöðu til afleiðinga þess að Delfi AS sætti ábyrgð. Viðurlögin sem eistneskir dómstólar ákvörðuðu félaginu voru talin fremur léttvæg. Því var gert að greiða sekt sem nam jafngildi um 320 evrum og dómstólarnir lögðu ekki á félagið nein fyrirmæli sem gætu takmarkað tjáningarfrelsi um hvernig það skyldi vernda réttindi þriðja manns í framtíðinni.

Að virtum þessum forsendum taldi MDE að það að láta Delfi AS sæta ábyrgð fyrir athugasemdirnar væri réttmæt takmörkun á tjáningarfrelsi félagsins og í samræmi við meðalhófssjónarmið. Því var talið að Eistland hefði ekki brotið gegn tjáningarfrelsisákvæði 10. gr. MSE.

Áhugavert er einnig að í málinu reyndi á málsástæðu Delfi AS þess efnis að evróputilskipun um rafræn viðskipti, eins og hún hafði verið innleidd í eistneskan rétt, hefði leitt til takmörkunar á ábyrgð félagsins. MDE taldi að það væri á verksviði innanlandsdómstóla að leysa úr álitaefnum um túlkun landsréttar og tók þar með ekki afstöðu til þessa álitaefnis út frá evrópurétti.

Dómur MDE var felldur af sjö dómara deild innan dómstólsins og er ekki enn orðinn endanlegur í samræmi við reglur 43. og 44. gr. MSE þar um. Innan þriggja mánaða frá dómsuppsögu getur sérhver aðili að máli krafist þess að máli verði vísað til yfirdeildar dómstólsins. Dómar verða þá endanlegir annað hvort við það að nefnd fimm dómara sem tekur ákvörðun um slíkar kröfur hafnar þeim eða eftir atvikum, ef nefndin fellst á að málinu sé vísað til yfirdeildar, með endanlegum dómi yfirdeildar dómstólsins.