Nýtur friðhelgi einkalífs fullnægjandi réttarverndar að óbreyttum lögum?

Í íslenskum rétti er ekki til að dreifa lagaákvæðum sem leggja með beinum hætti bann og refsingu við birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga úr gögnum sakamáls. Lög nr. 77/2000 um persónuvernd o.fl., veita eftir atvikum einhverja réttaravernd á þessu sviði, sem takmarkast eðli málsins samkvæmt af efnislegu og landfræðilegu gildissvið laganna, og er ekki fullnægjandi.

Í 229. gr. almennra hegningarlaga segir að hver sá sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi sem réttlæti verknaðinn, skuli sæta sektum eða fangelsi í allt að einu ári. Samkvæmt 3. mgr. 242. gr. almennra hegningarlaga getur sá einn sem misgert er við höfðað mál vegna brots gegn friðhelgi einkalífs á grundvelli 229. gr. laganna. Hér er því um að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu að refsiverð brot sæti opinberri rannsókn og saksókn handhafa opinbers valds.

Af framangreindu leiðir að brotþoli verður sjálfur að leita réttar síns í einkarefsimáli þegar brotið er gegn friðhelgi einkalífs hans, en brotaþoli nýtur ekki atbeina lögreglu við upplýsa brotið að óbreyttum lögum. Það getur því verið miklum erfiðleikum háð fyrir brotaþola að ná fram rétti sínum vegna brots gegn friðhelgi einkalífs þegar ekki liggur fyrir hver framdi brotið, s.s. ef hinn brotlegi hefur ekki komið fram undir nafni eða notað ranga eða tilbúna undirskrift, sem ætla má að sé frekar regla en undantekning.

Sama gildir um málsókn brotaþola vegna ærumeiðinga á grundvelli 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga, en þar er meginreglan sú að brotaþoli verður að höfða einkarefsimál telji hann á sér brotið. Sú mikilvæga undantekning er þó gerð í c. lið 2. mgr. 242. gr. almennra hegningarlaga, að ef ærumeiðing er sett fram nafnlaust eða með rangri eða tilbúinni undirskrift, þá sætir málið opinberri rannsókn og saksókn. Engin rök standa til þess að það sama eigi ekki að gilda um brot gegn friðhelgi einkalífs. Það er því aðkallandi að breyta almennum hegningarlögum með þeim hætti að brot gegn 229. gr. laganna sæti opinberri rannsókn og saksókn þegar ekki liggur fyrir hver hinn brotlegi er.

Samhliða þarf að breyta lögum um meðferð sakamála með þeim hætti að inn í lögin komi lagaákvæði sem leggi bann við birtingu og dreifingu málsgagna í sakamálum sem hafa að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar. Þá er rétt að ríkissaksóknari fari með rannsókn og saksókn slíkra brota án kröfu enda um mikilvæga almannahugsmuni að ræða, sem varða grundvöll réttarríkisins.

Sú skylda hvílir á íslenskum stjórnvöldum samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum að veita friðhelgi einkalífs fullnægjandi réttarvernd samanber meðal annars 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Stjórnarskrárgjafinn hefur lagt löggjafanum sambærilega skyldu á herðar samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Að óbreyttum lögum nýtur friðhelgi einkalífs ekki fullnægjandi réttarverndar í íslenskum rétti. Því þarf að breyta.